Körfubolti

Benedikt: Viljum kvitta fyrir tapið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benedikt Guðmundsson og Avi Fogel, leikmaður KR.
Benedikt Guðmundsson og Avi Fogel, leikmaður KR. Mynd/Völundur

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, fagnar tækifærinu á að hefna fyrir tapið í Grindavík í deildinni í haust en liðin mætast í 16-liða úrslitum Lýsingarbikarkeppni karla.

„Mér líst vel á þetta," sagði Benedikt. „Ég er ánægður með að fá heimaleik en það er alveg ljóst að þetta verður ekki auðvelt. Við töpuðum fyrir þeim í deildinni í Grindavík og er gaman að fá tækifæri til að kvitta fyrir það."

Grindavík hefur unnið síðustu sjö leiki sína á leiktíðinn og aðeins tapað einum, gegn Keflavík í fyrstu umferðinni. „Það er heldur betur sigling á þeim og eins og staðan er í dag er Grindavík annað tveggja sterkustu liða í deildinni. Liðið er með allt til alls og getur náð góðum árangri í vetur."

KR er í þriðja sæti deildarinnar með tólf stig, tveimur á eftir Grindavík.

Benedikt segir að liðið ætli sér að sjálfsögðu að gera allt sem í valdi þess stendur til að komast áfram í fjórðungsúrslit bikarkeppninnar. „Við leggum áherslu á að vinna alla okkar leiki. Bikarinn er stór titill sem öll lið ætla sér að vinna og erum við engin undantekning frá því. Við erum langt frá því að vera saddir þó við unnum þann stóra í vor."

KR lék í dögunum í Tyrklandi í Evrópukeppninni og segir Benedikt að leikmenn séu að ná sér af mestu ferðaþreytunni. „Þetta var 36 tíma ferðalag og því nokkuð strembið. En við eigum leik á sunnudaginn gegn Hamri og hefur KR tapað síðustu þremur leikjum liðanna. Það er því kominn tími til að snúa því við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×