Skæruliðar hins svokallaða Kúrdiska verkamannaflokks segjast reiðubúnir að hefja samningaviðræður sem gætu orðið til þess að þeir legðu niður vopn.
Tugþúsundir tyrkneskra hermanna eru á landamærunum að Írak, þar sem kúrdarnir halda til. Undanfarnar vikur hafa þeir myrt tugi Tyrkja í árásum yfir landamærin.
Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í vikunni eftir fund með George Bush að þeir héldu fast við að fara inn í Norður-Írak til þess að ráða niðurlögum kúrdanna.
Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið skilgreina Kúrdiska verkamannaflokkinn sem hryðjuverkasamtök.
Engu að síður er lagt hart að Tyrkjum að ráðast ekki inn í Írak, enda norðurhéruð landsins þau einu þar sem ríkir sæmilegur friður.