Fótbolti

Eiður: Miðjan mín besta staða

Eiður í leik með Börsungum á síðustu leiktíð.
Eiður í leik með Börsungum á síðustu leiktíð. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir í samtali við heimasíðu Barcelona að honum líði best á miðjunni og að hann sé reiðubúinn að spila þar.

Hann fékk í gær að koma inn á í fyrsta skiptið á leiktíðinni er hann kom inn á fyrir Deco á 71. mínútu. Portúgalinn átti við meiðsli að stríða.

„Það er auðvitað aldrei gott að koma inn á vegna þess að liðsfélagi þinn er meiddur en ég er ánægður með að hafa fengið mínar fyrstu mínútur á tímabilinu. Það hefði reyndar verið betra ef við hefðum unnið leikinn," sagði Eiður.

Barcelona tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í gær er það tapaði fyrir Villarreal á útivelli, 3-1. Fyrir vikið féll liðið í fjórða sæti spænsku deildarinnar.

„Villarreal er með sterkt lið og það búa miklir hæfileikar í liðinu. Við spiluðum vel eftir að við lentum 2-0 undir en þriðja markið þeirra gerði okkur mjög erfitt fyrir."

Eiður átti við meiðsli að stríða á undirbúningstímabilinu og gekk ekki 100 prósent heill til skógar í landsleikjunum í vikunni.

„Mér líður vel en vantar að fá fleiri mínútur."

Hann segir að það henti honum vel að spila á miðjunni.

„Miðjan er mín besta leikstaða. Mér líður vel þar og spilaði síðustu tvö ár mín hjá Chelsea á miðjunni. Það er ekki vandamál fyrir mig að spila þar og er ég reiðubúinn til þess."

Eiður hefur fallið aftarlega í goggunarröðinni hjá sóknarmönnum liðsins en þeir Ronaldinho, Lionel Messi, Samuel Eto'o, Bojan Krkic og Giovani eru allir ofar í röðinni. Eto'o er reyndar meiddur sem stendur.

Krkic var í byrjunarliði Börsunga í fyrsta skipti í gær og skoraði um leið sitt fyrsta mark fyrir aðallið félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×