Fuglaflensa af hinum hættulega H5N1 stofni hefur greinst í fuglum á fuglabúi í suðurhluta Þýskalands. 400 fuglar drápust úr flensunni þar á skömmum tíma. Öðrum fuglum þar verður nú fargað - öllum 160 þúsund. Ekki er vitað með vissu hvernig sjúkdómurinn barst í fuglana á búinu.
Mörg tilfelli flensunnar hafa greinst í villtum fuglum í Þýskalandi það sem af er árinu. H5N1 afbrigði sjúkdómsins hefur orðið nærri 200 manns að aldurtila víða um heim frá árinu 2003, en þó aðallega í Indónesíu.
Sérfræðingar óttast enn að veikin eigi eftir að stökkbreytast og smitast þannig auðveldlega milli manna. Tilfelli hennar í mönnum hefur þó hingað til aðeins verið hægt að rekja til sýktra fuglshræja sem fólkið hefur meðhöndlað.