Ron Dennis, stjóri McLaren liðsins í Formúlu 1, segist vorkenna fyrrum ökumanni sínum Kimi Raikkönen sem gekk í raðir Ferrari fyrir tímabilið. Finninn byrjaði vel og náði sigri í sinni fyrstu keppni fyrir Ferrari, en síðan hefur heldur hallað undan fæti hjá honum.
"Kimi er vinur minn og ég sé að hann á erfitt uppdráttar," sagði Dennis sem var yfirmaður Finnans í fimm ár. "Ég lít á hann sem vin minn en ekki keppinaut og það er erfitt að sjá vini sína eiga erfitt uppdráttar," sagði Dennis.
Raikkönen vann góðan sigur í ástralska kappakstrinum í vor en hefur síðan þurft að horfa upp á draumaliðsmennina Lewis Hamilton og heimsmeistarann Fernando Alonso hjá McLaren stinga sig af í stigatöflunni. Raikkönenn þurfti að hætta í spænska kappakstrinum og lenti í óhappi í síðustu keppni í Mónakó. Þá er félagi hans Felipe Massa hjá Ferrari þegar kominn tíu stigum framúr honum í keppni ökuþóra. Næsta keppni í Formúlu 1 fer fram í Kanada um helgina.
Staða ökuþóra:
1. Fernando Alonso - McLaren 38 stig
2. Lewis Hamilton - McLaren 38 stig
3. Felipe Massa - Ferrari 33 stig
4. Kimi Raikkönen - Ferrari 23 stig
5. Nick Heidfeld - BMW 18 stig
Staða bílasmiða:
1. McLaren 76 stig
2. Ferrari 56 stig
3. BMW Sauber 30 stig
4. Renault 16 stig