Stuðningsmenn Liverpool eru þeir verstu í Evrópu samkvæmt nýrri könnun sem Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, gaf frá sér í gær. Útsendarar UEFA voru í dulargervi á meðal stuðningsmanna til þess að safna gögnum um hegðan þeirra. Nokkur vandræði sköpuðust þegar Liverpool mætti AC Milan í úrslitaleik meistaradeildarinnar og hefur UEFA kennt stuðningsmönnum Liverpool um þau.
William Gaillard, talsmaður UEFA, sagði að á sama leik hefðu engin vandræði orðið vegna stuðningsmanna AC Milan. Stuðningsmönnum Liverpool hefur meðal annars verið kennt um Heysel-slysið en þá létust 39 áhorfendur þegar að veggur hrundi yfir þá. Liverpool stuðningsmenn höfðu þá gert áhlaup á vegginn.