Portúgalska lögreglan greindi frá því nú síðdegis að ekki væru nægar vísbendingar til að ákæra breskan mann vegna hvarfsins á Madeleine McCann. Maðurinn var handtekinn í gærkvöld en hann er búsettur nærri hótelinu í Praia De Luz á Algarve þaðan sem hin fjögurra ára gamla telpan var numin á brott. Hann þótti hegða sér grunsamlega og því var lögreglunni gert viðvart. Tveir aðrir hafa verið yfirheyrðir en þeim var sleppt í gær. Lögreglan er því engu nær um hvarf telpunnar fyrir tólf dögum.
