Sýnt verður beint frá blaðamannafundi Lögreglunnar í Portúgal klukkan 17.30 að íslenskum tíma á visir.is. Búist er við að upplýst verði um meiriháttar umskipti í rannsókn lögreglunnar á hvarfi Madeleine McCann. Stúlkan var numin á brott af hótelherbergi sínu fyrir viku og hefur leit staðið yfir síðan. Fundurinn fer fyrst fram á portúgölsku og síðan ensku.
Blaðamannafundurinn var tilkynntur eftir að foreldrum stúlkunnar var ekið í skyndi frá íbúð sinni í Portúgal. Samkvæmt fréttaritara Sky í Portúgal hefur lítill bær nálægt Sevilla á suðurhluta Spánar verið umkringdur.
Grunur lögreglunnar beinist nú að tveimur karlmönnum og konu, sem sáust á bensínstöð með stúlku sem líktist mjög hinni þriggja ára Madeleine.
Myndir voru teknar á öryggismyndavélum af þremenningunum og stúlkunni á bensínstöð nálægt Praia da Luz, en þaðan liggur vegur til Spánar.
