Innlent

Segir Steingrím J. forhertan

Steingrímur J. Sigfússon er forhertur stuðningsmaður landbúnaðarstefnu sem á stóran þátt í uppblæstri og gróðureyðingu. Þetta sagði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, í harðri gagnrýni á formann Vinstri grænna í Silfri Egils í dag, og sagði Steingrím auk þess slá skjaldborg um okurvexti og okurverð.

Steingrímur J. nýtur þess í skoðanakönnunum að vera talinn ekta náttúruverndarsinni, sagði Jón Baldvin. Þessi mikli náttúruverndarmaður sé hins vegar forhertur og eindreginn stuðningsmaður landbúnaðarstefnu Framsóknar, sem eigi stóran þátt í því að Ísland sé hið tötrum klædda land. Landbúnaðarstefna Framsóknar sé það sem Kiljan kallaði "hernaðinn gegn landinu", - uppblástur og gróðureyðing.

Þessi sama landbúnaðarstefna gangi einnig gegn hagsmunum fátækra þjóða. Sá sem styðji búverndarstefnu hinna feitu, hvítu og ríku sé að forakta málstað hinna snauðu og fátæku í heiminum. Íslendingar séu mestu öfgamennirnir í því. Landbúnaðarstyrkir á Íslandi séu tvöfalt meiri en hjá Evrópusambandinu. Við séum að loka mörkuðum okkar fyrir hinum fátæku. Afleiðingarnar séu hungur og vesöld hjá helmingi mannkyns.

Jón Baldvin sakaði Vinstri græna einnig um að ganga gegn hagsmunum launþega og verkalýðshreyfingar. Sá sem styðji forsendur okursamfélagsins, annarsvegar landbúnaðarbixið, - ofurtollana, - og sá sem styður af þjóðernisástæðum efnahagsstefnu Davíðs Oddssonar, það er að segja að slá skjaldborg um ónýta krónu, - hann er að segja: Ég styð okurþjóðfélagið íslenska, sem býður fólki upp á okurvexti og okurverð. Þetta sé ekki róttækni. "Þetta er að slá skjaldborg um óbreytt ástand. Svona eiga vinstri menn ekki að tala," sagði Jón Baldvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×