Fótbolti

Bayern Munchen að missa af lestinni

Schalke endurheimti toppsætið í þýsku úrvalsdeildinni í dag með því að leggja Energie Cottbus af velli í dag, 2-0 en Werder Bremen hafði komist á toppinn í gærkvöldi með 3-1 sigri á Alemannia Aachen. Þá má segja að titilvonir Bayern séu að engu orðnar eftir 2-0 tap gegn Stuttgart í dag.

Schalke hefur nú unnið þrjá leiki í röð og virðist vera að toppa á réttum tíma. Þjálfari liðsins, Mirko Slomka, segir leikmenn sína staðráðna í að fara ekki á taugum. “Það eru fjórar vikur eftir af mótinu og margt getur gerst. En þetta er í okkar höndum,” sagði hann.

Í leik sem vitað var að myndi ráða miklu um hver hreppti þriðja og síðasta sætið í Meistaradeild Evrópu vann Stuttgart ríkjandi meistara í Bayern Munchen örugglega af velli, 2-0. Staða Bayern er nú orðin afar vond, en fyrir utan að eiga nánast enga möguleika á meistaratitlinum lengur bendir margt til þess að liðið vinni sér ekki einu sinni þáttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Schalke er með 62 stig á toppi deildarinnar en Werder Bremen er með 60 stig. Stuttgart er í þriðja sæti með 58 stig en Bayern Munchen er með 53 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×