Stjórnarerindrekar Norður-Kóreu sem staðsettir eru erlendis hafa neitað beinni skipun Norður-kóreskra yfirvalda um að senda börn sín heim á leið. Fréttamiðlar í Suður-Kóreu skýra frá þessu.
Skipunin var gefin fyrr á þessu ári. Samkvæmt henni mega erindrekar stjórnarinnar aðeins hafa eitt barn með sér á meðan þeir dveljast erlendis en önnur, ef þeir eiga, verða þeir að skilja eftir í Norður-Kóreu. Tilskipunin á að koma í veg fyrir að fólk flýi land.
Stöðugildi erlendis eru mjög eftirsótt í Norður-Kóreu og fá aðeins tryggustu stuðningsmenn kommúnistaflokksins þær stöður. En um leið og þeir fara erlendis og búa í vestrænu samfélagi fara stjórnvöld heima fyrir að gruna þá um græsku.
Talið er að reglugerðin eigi við um 2-3.000 börn en enn sem komið er hafa stjórnarerindrekar ekki sent mörg börn heim á leið. Sérstaklega fá börn hafa komið frá þeim sem staðsettir eru í Kína. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa því sent sérstakan rannsóknarmann til Peking til þess að athuga málið.
Fréttavefur BBC skýrir frá þessu í dag.