Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir hnífsstungu við Select

MYND/Hörður

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt nítján ára gamlan pilt í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stungið öryggisvörð við bensínsstöð Shell við Suðurfell í bakið í haust.

Maðurinn var þar ásamt félaga sínum aðfaranótt sunnudagsins 10. september og kom til átaka milli hans og annars manns á bensínstöðinni. Þegar öryggisvörðurinn hafði afskipti af þeim dró ákærði upp lítinn hníf og stakk hann og kýldi hann í andlitið. Félagi mannsins kom honum einnig til aðstoðar og kýldi öryggisvörðinn þannig að hann hlaut sár í andlitið.

Árásarmennirnir flýðu af vettvangi en gáfu sig fram eftir að lögregla hafði birt myndir af þeim úr öryggismyndavél við bensínssstöðina í fjölmiðlum.

Fyrir dómi viðurkenndi unglingurinn að hafa stungið öryggisvörðinn en bar meðal annars við minnisleysi sökum ölvunar. Sagðist hann ekki hafa áttað sig á að maðurinn sem hann stakk væri öryggisvörður.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að unglingurinn hefði ekki gerst áður brotlegur við lög og að hann hefði gefið sig fram við lögreglu, játað á sig verknaðinn og greitt öryggisverðinum bætur. Þá er litið til þess í dómnum að ákærði brá ekki hnífnum á loft fyrr en öryggisvörðurinn hafði fellt hann til jarðar og hvíldi þar ofan á honum af talsverðum þunga og þess að myndupptaka bar ekki með sér að ákærði hefði haft styrkan og einbeittan vilja til að stinga manninn með hnífnum.

Þótti því þriggja mánaða fangelsi sem er skilorðsbundið til þriggja ára hæfileg refsing. Auk þess ber honum að greiða ríflega 300 þúsund í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×