Innlent

Eins árs fangelsi fyrir að kveikja í íbúð og bíl

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmanna í eins árs fangelsi fyrir að reyna að kveikja í bæði íbúð og bíl þannig að það hafði í för með sér almannahættu.

Fyrra atvikið átti sér stað í janúar í fyrra en þá bar maðurinn eld að blaðabunka í íbúð í fjölbýlishúsi í Lómasölum og olli með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu. Eldurinn uppgötvaðist fljótlega og var slökktur af lögreglu og slökkviliði.

Í síðara tilvikinu, sem var í maí í fyrra, braut hann rúðu á bíl og fleygði logandi handklæði inni í hann þannig að bíllinn brann ásamt tveimur öðrum sem stóðu hvor sínum megin við hann. Þótti þetta líka hafa í för með sér almannahættu.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og bar því við að hafa kveikt í vegna reiði út í föður sinn sem á íbúðina og bílinn. Faðir hans hafi viljað koma honum í meðferð vegna mikillar áfengis- og fíkniefnaneyslu. Geðlæknir mat manninn sakhæfan en hann hafði tvisvar áður hlotið dóm fyrir hegningarlagabrot.

Þótti dómnum ekki skilyrði til að skilorðsbinda dóm mannsins sem er sem fyrr segir eins árs fangelsi. Þá var hann dæmdur til að greiða. Þá var hann dæmdur til að greiða eigendum bílanna tveggja sem brunnu tæplega 1,2 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×