Skýrt strik Þorsteinn Pálsson skrifar 3. október 2007 00:01 Með sanni má segja að stefnuræða forsætisráðherra í gærkvöldi hafi fremur verið þung en þunneggjuð. Hún var laus við orðagjálfur og upphafningu. Forsætisráðherrann er stundum gagnrýndur fyrir skort á þessu tvennu. Í langhlaupi stjórnmálanna er slíkur skortur þó fremur styrkur. Þegar spurt er hvaða ímynd stefnuræðan hafi gefið af ríkisstjórninni er vafningalaust unnt að vísa á skip með góða kjölfestu sem stýrt er eftir nokkuð skýru striki. Ræðan hafði þar á móti ekki að geyma mikinn nýjan boðskap. Að sínu leyti var hún því eins og vænta mátti eins konar áhersluauki við stjórnarsáttmálann frá síðasta vori. Þó að nýrri ríkisstjórn fylgi að nokkru leyti nýtt tungutak og ný viðhorf í sumum efnum hafa ekki orðið nein hugmyndafræðileg kaflaskil við landsstjórnina. Það gerðist síðast 1991. Þetta er því þriðja stjórnarmynstrið í röð þar sem strikið er stillt upp á nýtt en kjölfestan er sú sama. Þegar spurt er hvort draga megi ályktanir af ræðunni um samstarf stjórnarflokkanna er því fljótsvarað. Það sýnist vera byggt á heilindum en um leið skilningi á að um sum mikilvæg viðfangsefni eru skoðanir skiptar. Engar vísbendingar komu fram um stjórnunarvanda innanbúðar. Þegar spurt er um málefni vekur helst athygli að fræðslumál og rannsóknir eru ekki formlega gerð að höfuðviðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Það er gömul saga og ný í samsteypustjórnum að erfitt er að gefa málefnum sem heyra undir annan stjórnarflokkinn eða einn þeirra sérstakt fyrirrúm. Eigi að síður er það svo að forsætisráðherra boðar ný frumvörp þegar á þessu þingi um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þó að efni þeirra sé ekki kunngert er þetta í fyrsta skipti sem stefnumótun fyrir öll skólastigin liggur fyrir Alþingi á sama tíma. Skólastarfið á og þarf að skila meiri árangri. Á miklu veltur því að hér takist vel til. Eftirtakanlegt er einnig í þessu viðfangi að fyrirheit eru gefin um tvöföldun á framlögum til vísinda- og tæknirannsókna. Það er skýrt og rökrétt framhald af merkustu ákvörðun síðustu ríkisstjórnar um viðreisn Háskóla Íslands. Góð staða ríkissjóðs gaf forsætisráðherra tilefni til að opna umræðu um frekari skattalækkanir. Spurning er hvort ekki er rétt að fella hugleiðingar af því tagi í farveg alvöru athugana á gagngerri skattkerfisbreytingu. Tuttugu ár eru síðan kerfisbreyting var gerð á skipan skattamála. Nú er því lag til að taka þessi mál slíkum tökum fremur en að fara í smáskammtalækningar. Með því að myntbreyting og Evrópumál eru ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar eru eðlileg efnistök að nefna þau ekki í stefnuræðu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að búa þessum málum umræðufarveg í sérstakri samráðsnefnd. Þau vandamál sem fylgja smámynt á opnu og úfnu úthafi alþjóðlegra viðskipta hverfa hins vegar ekki. Þegar líður á kjörtímabilið þarf því að setja niður strik til að sigla eftir í þeim efnum. Þegar spurt er hvað helst vantaði í ræðuna er svarið einfalt: Nánari umfjöllun um framtíðarskipulag orkumálanna. Sú umræða er að vísu stutt á veg komin en verður vafalaust eitt af stóru viðfangsefnunum á vettvangi stjórnmálanna á komandi tíð. Iðnaðarráðherra hefur þegar kynnt um margt skynsamlegar hugmyndir í þeim efnum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Fjórar leiðir til að verða besta útgáfan af þér Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn og fátæka fólkið Yngvi Ómar Sighvatsson ,Jón Ferdínand Estherarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvernig þjóð viljum við vera? Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir Skoðun Meiri rökræður, minni áróður: Borgaraþing fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild Valgerður Björk Pálsdóttir Skoðun Rammaáætlun og Hvammsvirkjun: Heimilt en ekki skylt Mörður Árnason Skoðun
Með sanni má segja að stefnuræða forsætisráðherra í gærkvöldi hafi fremur verið þung en þunneggjuð. Hún var laus við orðagjálfur og upphafningu. Forsætisráðherrann er stundum gagnrýndur fyrir skort á þessu tvennu. Í langhlaupi stjórnmálanna er slíkur skortur þó fremur styrkur. Þegar spurt er hvaða ímynd stefnuræðan hafi gefið af ríkisstjórninni er vafningalaust unnt að vísa á skip með góða kjölfestu sem stýrt er eftir nokkuð skýru striki. Ræðan hafði þar á móti ekki að geyma mikinn nýjan boðskap. Að sínu leyti var hún því eins og vænta mátti eins konar áhersluauki við stjórnarsáttmálann frá síðasta vori. Þó að nýrri ríkisstjórn fylgi að nokkru leyti nýtt tungutak og ný viðhorf í sumum efnum hafa ekki orðið nein hugmyndafræðileg kaflaskil við landsstjórnina. Það gerðist síðast 1991. Þetta er því þriðja stjórnarmynstrið í röð þar sem strikið er stillt upp á nýtt en kjölfestan er sú sama. Þegar spurt er hvort draga megi ályktanir af ræðunni um samstarf stjórnarflokkanna er því fljótsvarað. Það sýnist vera byggt á heilindum en um leið skilningi á að um sum mikilvæg viðfangsefni eru skoðanir skiptar. Engar vísbendingar komu fram um stjórnunarvanda innanbúðar. Þegar spurt er um málefni vekur helst athygli að fræðslumál og rannsóknir eru ekki formlega gerð að höfuðviðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Það er gömul saga og ný í samsteypustjórnum að erfitt er að gefa málefnum sem heyra undir annan stjórnarflokkinn eða einn þeirra sérstakt fyrirrúm. Eigi að síður er það svo að forsætisráðherra boðar ný frumvörp þegar á þessu þingi um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þó að efni þeirra sé ekki kunngert er þetta í fyrsta skipti sem stefnumótun fyrir öll skólastigin liggur fyrir Alþingi á sama tíma. Skólastarfið á og þarf að skila meiri árangri. Á miklu veltur því að hér takist vel til. Eftirtakanlegt er einnig í þessu viðfangi að fyrirheit eru gefin um tvöföldun á framlögum til vísinda- og tæknirannsókna. Það er skýrt og rökrétt framhald af merkustu ákvörðun síðustu ríkisstjórnar um viðreisn Háskóla Íslands. Góð staða ríkissjóðs gaf forsætisráðherra tilefni til að opna umræðu um frekari skattalækkanir. Spurning er hvort ekki er rétt að fella hugleiðingar af því tagi í farveg alvöru athugana á gagngerri skattkerfisbreytingu. Tuttugu ár eru síðan kerfisbreyting var gerð á skipan skattamála. Nú er því lag til að taka þessi mál slíkum tökum fremur en að fara í smáskammtalækningar. Með því að myntbreyting og Evrópumál eru ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar eru eðlileg efnistök að nefna þau ekki í stefnuræðu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að búa þessum málum umræðufarveg í sérstakri samráðsnefnd. Þau vandamál sem fylgja smámynt á opnu og úfnu úthafi alþjóðlegra viðskipta hverfa hins vegar ekki. Þegar líður á kjörtímabilið þarf því að setja niður strik til að sigla eftir í þeim efnum. Þegar spurt er hvað helst vantaði í ræðuna er svarið einfalt: Nánari umfjöllun um framtíðarskipulag orkumálanna. Sú umræða er að vísu stutt á veg komin en verður vafalaust eitt af stóru viðfangsefnunum á vettvangi stjórnmálanna á komandi tíð. Iðnaðarráðherra hefur þegar kynnt um margt skynsamlegar hugmyndir í þeim efnum.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn og fátæka fólkið Yngvi Ómar Sighvatsson ,Jón Ferdínand Estherarson Skoðun
Meiri rökræður, minni áróður: Borgaraþing fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild Valgerður Björk Pálsdóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn og fátæka fólkið Yngvi Ómar Sighvatsson ,Jón Ferdínand Estherarson Skoðun
Meiri rökræður, minni áróður: Borgaraþing fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild Valgerður Björk Pálsdóttir Skoðun