Körfubolti

Flautukarfa Pálmars var mun mikilvægari

Einar Bollason hestamaður
Einar Bollason hestamaður

Einar Bollason var í Höllinni í síðustu viku þegar Jakob Örn Sigurðarson tryggði íslenska landsliðinu 76-75 sigur á Georgíu með þriggja stiga körfu á síðustu sekúndunni.

Einar var þjálfari íslenska liðsins árið 1986 þegar frægasta flautukarfa í sögu íslenska landsliðsins leit dagsins ljós en hún var líka skoruð á fjölum Laugardalshallarinnar. Pálmar Sigurðsson tryggði íslenska liðinu þá 75-72 sigur á Norðmönnum og þar með sæti í b-keppninni í fyrsta skiptið.

„Karfan hans Pálmars er örugglega frægasta flautukarfan í sögu landsliðsins enda skipti hún ólíkt meira máli heldur en þessi karfa hjá Jakobi. Hún tryggði okkur sæti í b-úrslitum en b-úrslitin þá voru bara eins og hluti af a-úrslitunum núna því a-þjóðirnar voru bara fjórar efstu þjóðirnar plús heims- og Ólympíumeistarar,” rifjar Einar upp.

„Þetta var algjör úrslitaleikur í riðlinum og þessi karfa var ekkert skoruð við þriggja stiga línuna heldur var hann svona tveimur metrum fyrir utan og ég held að hann hafi verið með hálft norska liðið í andlitinu á sér þegar hann lét vaða. Pálmar var ein mesta þriggja stiga skytta okkar á þessum tíma og honum var bara falið þetta,“ lýsir Einar, sem var mættur í Höllina til að fylgjast með landsliðinu gegn Georgíu.

„Ég var búinn að gefa upp alla von því okkar menn voru búnir að fara svo illa að ráði sínu. Við hefðum átt að vera búnir að vinna þennan leik þremur til fjórum sóknum áður,” segir Einar og bætir við: „Þetta er tvímælalaust einn af okkar stóru sigrum í landsleikjasögunni því Sovétríkin hefðu getað sent fimm til sex landslið á Ólympíu- og heimsleika sem hefðu verið meðal tólf efstu. Georgía er eitt af þessum ríkjum þar sem körfuboltinn er í hávegum hafður. Ég held að við myndum ekki vinna marga leiki á móti þeim ef við færum í einhverja leikjarunu. Það breytir samt engu um úrslitin í fyrrakvöld sem voru alveg stórkostleg. Ég tek ofan fyrir okkar strákum og gamla landsliðshjartað tók kipp að sjá baráttuna í liðinu,” segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×