Kvikmynd Orsons Welles frá árinu 1941, Citizen Kane, hefur verið kjörin besta bandaríska mynd allra tíma af bandarísku kvikmyndastofnuninni, AFI. Myndin var einnig á toppnum þegar listi stofnunarinnar var síðast birtur árið 1998.
Í öðru sæti varð mafíumyndin The Godfather og Vertigo eftir Alfred Hitchcock náði níunda sæti eftir að hafa verið í því 61. á síðasta lista. Nýrri myndir náðu ekki hátt á listanum. Lord of the Rings komst hæst, eða í 50. sæti, Saving Private Ryan lenti í 71., Titanic í 83, og sálfræðitryllirinn The Sixth Sense í því 89. Ekki fleiri nýlegar myndir komust á lista yfir hundrað bestu myndirnar.
Steven Spielberg átti flestar myndir á listanum, eða fimm talsins. James Stewart og Robert De Niro léku í flestum myndanna, eða í fimm hvor. Listinn var unninn þannig að 1.500 atkvæðaseðlar voru sendir til kvikmyndagerðarmanna, leikara, handritshöfunda og annarra háttsettra aðila í Hollywood, sem fengu að velja úr 400 myndum.