Bíó og sjónvarp

Heiðursmaður kveður

Newman og Woodward hafa verið gift í fimmtíu ár, sem þykir einstakt í Hollywood. Þau hafa sinnt góðgerðarmálum af miklum krafti og reka meðal annars matvælafyrirtækið Newman‘s Own.
Newman og Woodward hafa verið gift í fimmtíu ár, sem þykir einstakt í Hollywood. Þau hafa sinnt góðgerðarmálum af miklum krafti og reka meðal annars matvælafyrirtækið Newman‘s Own. MYND/Getty

Paul Newman tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann væri hættur að leika. Þar með er einum merkasta kafla í sögu Hollywood lokið.

Newman hafði gefið það út fyrir um ári síðan að hann hygðist hætta afskiptum af kvikmyndaleik þegar hann næði 82 ára aldri. Hinn 25. maí rann sú stund upp.

Newman hafði tekið sína ákvörðun. Sagðist ekki lengur geta sinnt sínu starfi eftir bestu getu. „Ég er orðinn gleyminn og það er ekki gott í þessu starfi,“ sagði leikarinn.

Einstakur ferill
Cassidy Eitt frægasta hlutverk Pauls Newman og þá ekki síst reiðhjólaatriðið góðkunna.

Þegar ungir leikarar í Hollywood eru beðnir um að segja hver sé þeirra helsti áhrifavaldur nefna flestir Paul Newman. Og það eitt og sér kemur fáum á óvart. Fáir leikarar hafa notið jafn mikillar velgengni á ferli sínum. Níu Óskarsverðlaunatilnefningar segja sína sögu þótt Newman hafi aðeins einu sinni farið heim með styttuna góðu, fyrir The Color Of Money.

Paul Newman fæddist í Cleveland árið 1925. Foreldrar hans ráku íþróttavöruverslun í smábænum Shaker Heights og Newman stóð á bak við búðarborðið á sínum yngri árum.

„Ég fór ekki að leika vegna einhverrar innri ástríðu. Ég fór að leika til að sleppa við íþróttavöruverslunina,“ sagði Newman eitt sinn. Hann gekk síðan í herinn og þjónaði landi sínu í seinni heimsstyrjöldinni og reyndi að brjótast til frama sem orrustuflugmaður en var hafnað sökum litblindu sinnar.

Eftir að ferillinn innan hersins brotlenti sótti Newman um í leiklistardeild Yale-háskólans og lærði fræði sín hjá Lee Strasberg í New York. Þegar námi lauk vildi Newman ekki dveljast of lengi í Stóra eplinu og eftir nokkrar sýningar á Broadway lá leið hans til Hollywood. „Hérna er enginn friður til að læra,“ lét Newman hafa eftir sér um New York.

Leikarinn vakti strax mikla athygli fyrir þokkafullt útlit og hefði eflaust getað rakað inn háum upphæðum fyrir hlutverk hjartaknúsara sem voru á hverju strái á sjötta áratugnum. En Newman neitaði öllum slíkum handritum og reyndi frekar að komast í góðar kvikmyndir sem þó skiluðu ekki jafn miklu í kassann. Þegar á hólminn var komið reyndist Newman enda einn örfárra leikara sem lifðu af miklar kynslóðabreytingar í byrjun sjöunda áratugsins.

Kappaksturshetja og pólitíkus

Þótt Newman hafi verið mörgum kvikmyndaleikurum fyrirmynd hvað leikinn varðar er það ekki síst líf leikarans utan sviðsljóssins sem hefur aflað honum virðingar meðal samstarfsfélaga sinna. Newman hefur verið kvæntur leikkonunni Joanne Woodward í hartnær hálfa öld, sem þykir einstakur líftími hjónabands í Hollywood. Þau kynntust í gegnum sameiginlegan kunningja og unnu náið á Broadway um miðjan sjötta áratuginn. Newman var þá reyndar kvæntur Jackie Witte en fór fram á skilnað eftir að hann kynntist Woodward. Þau giftu sig síðan árið 1958 í Las Vegas. Þegar Newman var spurður af hverju hann hefði aldrei látið heillast af glamúrlífinu og stóðlífi kvikmyndaborgarinnar svaraði leikarinn:

„Af hverju að fá sér hamborgara þegar þú átt nautasteik heima hjá þér?“

Newman og Woodward búa fjarri skarkala Hollywood á sveitabýli sínu í Connecticut og hafa að mestu leyti einbeitt sér að góðgerðarmálum hin síðari ár. Newman stofnaði meðal annars matvælafyrirtækið Newman‘s Own sem flestir Íslendingar ættu að þekkja en allur ágóði af sölu þeirrar vöru rennur til styrktar langveikum börnum. Hafði fyrirtækið gefið yfir tvö hundruð milljónir dollara í maí árið 2007. Auk þess reka Newman og Woodward sumarbúðir fyrir langveik börn og meðferðarheimili fyrir eiturlyfjasjúklinga en sonur Newmans af fyrra hjónabandi, Scott, lést sökum ofneyslu árið 1978.

Þrátt fyrir að Newman hafi að mestu leyti einbeitt sér að leik í kvikmyndum liggur ástríða hans annars staðar. Newman er forfallinn fíkill í hvers kyns aksturs­íþróttir og hefur keppt með ágætis árangri í kappakstri. Þegar aðrir leikarar vilja fá kokka, líkamsræktarþjálfara eða hárgreiðslufólk á tökustað hefur Newman krafist þess að geta stigið á bensín­gjöfina á milli taka.

Newman hefur verið mjög pólitískt virkur, unnið mikið með Demókrataflokknum og barðist hatrammlega gegn stefnu Nixons forseta. Enda fór það svo að nafn Newmans var á óvinalista Nixons þegar hann var gerður upp­tækur eftir að Watergate-hneykslið komst í hámæli.

Þegar kvikmyndatímaritið Empire bað lesendur sína fyrir nokkrum árum um að velja fjóra guði í kvikmyndageiranum sem enn væru meðal okkar voru Jack Nicholson, Al Pacino, Marlon Brando og Paul Newman valdir. Brando er farinn yfir móðuna miklu og nú hefur annar guð ákveðið að leggja leiklistina á hilluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×