Hljómsveitin Nilfisk frá Stokkseyri er á leiðinni í afmælis- og tónleikaferð um Danmörk í apríl. Næstkomandi laugardag verða fjögur ár liðin síðan sveitin var formlega stofnuð og af því tilefni heldur hún tónleika á Draugabarnum á Stokkseyri í kvöld. Mun allur ágóðinn renna í reisuna til Danmerkur.
Hljómsveitin We Space frá Selfossi kemur einnig fram.
„Við verðum í Kaupmannahöfn og förum líka um allt Jótland að spila,“ segir gítarleikarinn Víðir Björnsson. „Við verðum á stað sem heitir Skarfurinn, þar sem við spiluðum í fyrra. Við vorum í skóla á Jótlandi í fyrra og fórum í tónleikaferð áður en við komum heim. Við ætlum að byrja tónleikaferðina í gamla skólanum okkar. Það verður svona „reunion“ fyrir alla sem voru í skólanum,“ segir hann. Lærðu allir meðlimir Nilfisk hljóðtækni í skólanum.