Hljómsveitirnar Lada Sport og Mammút munu spila á tónleikahátíðinni South by South West í Texas á næstunni. Til að hita upp fyrir ferðina og til að fá hjálp við fjármögnun ætla sveitirnar að halda tónleika á Grandrokki í kvöld.
Tónleikarnir í Texas verða þeir fyrstu sem Lada Sport heldur erlendis. „Fyrir okkur er þetta frábært. Einn meðlimur er meira að segja að fara í fyrsta skipti frá Íslandi, þannig að fyrsta utanlandsferðin hans er tónleikaferð,“ segir trommari Lödu Sport, Haraldur Leví Gunnarsson.
Upptökur eru hafnar á fyrstu stóru plötu sveitarinnar og er hún væntanleg í búðir í júní. „Tónleikarnir hérna heima verða síðustu tónleikarnir okkar á Íslandi þangað til platan kemur út en í sumar ætlum við að spila á fullu. Síðan förum við vonandi út aftur, kannski í haust,“ segir Haraldur.
Miðaverð á tónleikana í kvöld er 500 krónur og opnar húsið klukkan 23.00.