Framleiðendur þáttaraðarinnar Lost eru í viðræðum við sjónvarpsstöðina ABC um hvenær þættirnir eigi að enda.
Ekki er búist við að þættirnir ljúki göngu sinni á næstunni en framleiðendurnir vilji hafa það á hreinu hvenær lokaþátturinn verði til að auðveldara sé að skipuleggja komandi þætti.
Dregið hefur úr áhorfi á þriðju þáttaröð Lost bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Framleiðendurnir segja þó ekki mikið að marka það því fyrstu tvær þáttaraðirnar hafi náð svo gríðarlegum vinsældum að erfitt sé að halda í við þær.
Engu að síður vilja þeir hætta með þáttaröðina á toppnum. Þættirnir The X-Files hafi til að mynda gengið tveimur þáttaröðum of lengi, sem þeir vilji ekki að eigi sér stað með Lost.