„Himinbornar systur“ 12. janúar 2007 06:15 Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskólans, rituðu í gær undir samkomulag um menntun og rannsóknir. Það markar nýtt upphaf í þróun vísindarannsókna og háskólakennslu. Í því felst einnig veigamesta pólitíska ákvörðun kjörtímabilsins. Þegar Benedikt Sveinsson þingmaður Norðmýlinga hóf baráttuna fyrir íslenskum háskóla á Alþingi var á brattann að sækja. Efi margra var sterkur. En hugsjón hans var stór og framsýnin skörp. Þegar hann mælti fyrir háskólafrumvarpinu 1881 komst hann svo að orði: „Þannig hefur innlend menntun, framför og frelsi jafnan verið þrjár skyldgetnar himinbornar systur, sem hafa haldist í hendur og leitt hverja einstaka þjóð að því takmarki, sem forsjónin hefur sett henni." Grímur Thomsen var sennilega eini sanni heimsborgarinn á þingi þá. Honum fannst háskólahugsjónin háfleyg og fyrst og fremst skáldleg því það væri fáheyrt einsdæmi að sjötíuþúsund manna þjóð hefði háskóla. Skáldið setti ofan í við fullhugann með þessari samlíkingu við flug valsins: „Hann sér ekki ævinlega vel fram á veginn þótt hann beini fluginu hátt. Eins er um 2. þingmann Norður Múlasýslu, svo vel sem hann hugsar, og svo háfleygur sem hann er í anda, þá er hann ekki ólíkur valnum, þegar hann er kallaður fálki." Andríki andmælanna hafði betur á þeim tíma. Nú er önnur öld. Vissulega efuðust ýmsir þegar háskólarektor kynnti stefnumörkun um að koma Háskóla Íslands í fremstu röð. Margir hafa ugglaust hugsað sitt. Engum datt þó í hug að kalla valinn fálka. Hitt var ljóst að komið var að vatnaskilum í starfi skólans. Framhaldið var augljóslega háð því hvernig brugðist yrði við á vettvangi stjórnmálanna. Óhætt er að fullyrða að menntamálaráðherra hafi brotið blað með þeirri skýru og markvissu skuldbindingu sem undirrituð var í gær. Það er til marks um að gildi fjárfestingar í menntun og rannsóknum er réttilega metið. Engin fjárfesting önnur er traustari undirstaða fyrir efnalegar framfarir en af því tagi sem þessi gerð felur í sér. Hún skilar Háskólanum ekki á leiðarenda þess markmiðs sem sett hefur verið en hún gerir honum kleift að leggja í þá för. Þar að baki liggur vel ráðin og metnaðarfull pólitísk ákvörðun. Mikilvægt er að hlú að fjölbreyttri háskólakennslu í landinu. Samkeppni á sviði vísinda og rannsókna er nauðsynleg. En sú pólitíska ákvörðun sem felst í samningi Háskólans og stjórnvalda markar skýra stefnu um hvar höfuð ábyrgðin liggur á þessu sviði. Með því er ekki gert lítið úr öðrum. Háskólinn hefur fengið byr í seglin. Fróðlegt verður að fylgjast með starfi vísinda- og fræðimanna skólans á komandi tíð. Þjóðin þarf að sjá og fylgjast betur með því starfi sem þar fer fram og reyndar á öðrum vettvangi þar sem rannsóknir eru stundaðar af metnaði og framsýni. Gott aðhald þarf að vera að því starfi. Nú um stundir tíðkast ógjarnan hátimbruð orð eins og notuð voru í upphafi háskólabaráttunnar. En með vissum hætti má segja að í gær hafi rektor og menntamálaráðherra staðið saman sem ágætis tákn fyrir þær þrjár „himinbornu systur" sem þá var lýst. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Kæru ungu foreldrar Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Allt að helmingslíkur á eyðingu byggðar á Íslandi Sigurður Loftur Thorlacius Skoðun Það besta sem þú gerir fyrir loftslagið Halldór Björnsson Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Stuldur um hábjartan dag Herdís Dröfn Fjeldsted Skoðun Frambjóðendur, gerið betur Steinunn Þórðardóttir Skoðun 7.500 íbúðir á Reykjavíkurflugvelli? Ásdís Kristjánsdóttir Skoðun Ný og fersk örmyndskýrsla um hvalveiðar Rán Flygenring Skoðun Dæmisaga úr raunveruleikanum Sigurður F. Sigurðarson Skoðun Varð að segja af sér ráðherradómi vegna vanhæfi – Er nú þrefaldur ráðherra, líka forsætisráðherra Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskólans, rituðu í gær undir samkomulag um menntun og rannsóknir. Það markar nýtt upphaf í þróun vísindarannsókna og háskólakennslu. Í því felst einnig veigamesta pólitíska ákvörðun kjörtímabilsins. Þegar Benedikt Sveinsson þingmaður Norðmýlinga hóf baráttuna fyrir íslenskum háskóla á Alþingi var á brattann að sækja. Efi margra var sterkur. En hugsjón hans var stór og framsýnin skörp. Þegar hann mælti fyrir háskólafrumvarpinu 1881 komst hann svo að orði: „Þannig hefur innlend menntun, framför og frelsi jafnan verið þrjár skyldgetnar himinbornar systur, sem hafa haldist í hendur og leitt hverja einstaka þjóð að því takmarki, sem forsjónin hefur sett henni." Grímur Thomsen var sennilega eini sanni heimsborgarinn á þingi þá. Honum fannst háskólahugsjónin háfleyg og fyrst og fremst skáldleg því það væri fáheyrt einsdæmi að sjötíuþúsund manna þjóð hefði háskóla. Skáldið setti ofan í við fullhugann með þessari samlíkingu við flug valsins: „Hann sér ekki ævinlega vel fram á veginn þótt hann beini fluginu hátt. Eins er um 2. þingmann Norður Múlasýslu, svo vel sem hann hugsar, og svo háfleygur sem hann er í anda, þá er hann ekki ólíkur valnum, þegar hann er kallaður fálki." Andríki andmælanna hafði betur á þeim tíma. Nú er önnur öld. Vissulega efuðust ýmsir þegar háskólarektor kynnti stefnumörkun um að koma Háskóla Íslands í fremstu röð. Margir hafa ugglaust hugsað sitt. Engum datt þó í hug að kalla valinn fálka. Hitt var ljóst að komið var að vatnaskilum í starfi skólans. Framhaldið var augljóslega háð því hvernig brugðist yrði við á vettvangi stjórnmálanna. Óhætt er að fullyrða að menntamálaráðherra hafi brotið blað með þeirri skýru og markvissu skuldbindingu sem undirrituð var í gær. Það er til marks um að gildi fjárfestingar í menntun og rannsóknum er réttilega metið. Engin fjárfesting önnur er traustari undirstaða fyrir efnalegar framfarir en af því tagi sem þessi gerð felur í sér. Hún skilar Háskólanum ekki á leiðarenda þess markmiðs sem sett hefur verið en hún gerir honum kleift að leggja í þá för. Þar að baki liggur vel ráðin og metnaðarfull pólitísk ákvörðun. Mikilvægt er að hlú að fjölbreyttri háskólakennslu í landinu. Samkeppni á sviði vísinda og rannsókna er nauðsynleg. En sú pólitíska ákvörðun sem felst í samningi Háskólans og stjórnvalda markar skýra stefnu um hvar höfuð ábyrgðin liggur á þessu sviði. Með því er ekki gert lítið úr öðrum. Háskólinn hefur fengið byr í seglin. Fróðlegt verður að fylgjast með starfi vísinda- og fræðimanna skólans á komandi tíð. Þjóðin þarf að sjá og fylgjast betur með því starfi sem þar fer fram og reyndar á öðrum vettvangi þar sem rannsóknir eru stundaðar af metnaði og framsýni. Gott aðhald þarf að vera að því starfi. Nú um stundir tíðkast ógjarnan hátimbruð orð eins og notuð voru í upphafi háskólabaráttunnar. En með vissum hætti má segja að í gær hafi rektor og menntamálaráðherra staðið saman sem ágætis tákn fyrir þær þrjár „himinbornu systur" sem þá var lýst.
Varð að segja af sér ráðherradómi vegna vanhæfi – Er nú þrefaldur ráðherra, líka forsætisráðherra Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Varð að segja af sér ráðherradómi vegna vanhæfi – Er nú þrefaldur ráðherra, líka forsætisráðherra Ole Anton Bieltvedt Skoðun