Talið er að íshellan hafi brotnað af Ayles eyju í ágúst árið tvöþúsund og fimm. Eyjan er hinsvegar mjög afskekkt og það var ekki fyrr en vísindamenn voru að fara yfir gervihnattamyndir sem þetta uppgötvaðist.
Íshellan er hvorki meira né minna en 106 ferkílómetrar að stærð, eða litlu minni en smáríkið Liechtenstein. Kanadiski vísindamaðurinn Derek Mueller segir að þeir líti gjarnan á íshellur sem vísbendingu um loftslagsbreytingar.
Mjög hafi hitnað á heimskautasvæðinu undanfarin ár, en það sé þó ekki endilega sönnun fyrir því að loftslagið sé að breytast.
Frekari bráðnun á heimskautasvæðinu gæti orðið til þess að nýjar siglingaleiðir verði til um Norðvesturleiðina, svokölluðu, sem tengir Norður-Atlantshafið við Kyrrahafið. Það myndi auka mjög skipaferðir framhjá Íslandi.