Íraskir saksóknarar í máli Saddams Hussein, sýndu í dag myndbandsupptökur sem þeir sögðu sýna ástandið í kúrdisku þorpi eftir eiturefna árás íraska hersins. Einnig var sýnt í réttinum minnisblað frá ritara Saddams, þar sem borið var lof á hollenskan kaupsýslumann sem hafði útvegað Írökum efnavopn af bannlista.
Saksóknarar segja að þessi efnavopn hafi verið notuð í árásum sem kostuðu yfir 180 þúsund Kúrda lífið. Á einu myndskeiðinu sem sýnt var í dag, sást hvar maður tók upp lík tveggja smábarna og lagði þau í pallbíl, sem þegar var fullur af líkum.
Á öðru myndskeiði mátti sjá látið smábarn liggja ofan á líki móður sinnar og á enn einu myndskeiði mátti sjá hóp kvenna gráta látna ættingja og vini.