Carina Christensen, hinn nýi fjölskyldu- og neytendaráðherra Danmerkur, náði ekki að klára einn dag í embætti áður en fjölmiðlar voru búnir að grafa upp meintar ávirðingar á hana. Christensen, sem er 34 ára gömul á og rekur húsgagnaverksmiðju á Fjóni.
Danskir fjölmiðlar hafa nú upplýst þjóðina um að hinn nýi ráðherra eigi í slíkum vandræðum með danska vinnueftirlitið að verksmiðjan hafi fengið það sem kallað er "broskarl með skeifu" til marks um að þar sé eitthvað athugavert að finna. Fjölmiðlum hefur þó ekki enn tekist að grafa upp hvað það er sem þykir að.
Einnig er skýrt frá því að amerísk húsgagnaverksmiðja hafi farið í mál við verksmiðju ráðherrans vegna þess að Kanarnir töldu Danina hafa stolið frá þeim hönnun á kommóðu. Verksmiðja Christensens var sýknuð fyrir Sjó- og viðskiptarétti, en þeim dómi verður áfrýjað til hæstaréttar.