Felipe Calderon var vígður í embætti sem forseti Mexíkó í dag. Athöfnin fór fram í þinghúsinu en stjórnarandstöðuþingmenn höfðu tekið sér stöðu í húsinu nokkrum dögum áður og klukkutíma fyrir athöfnina tóku þeir völdin og lokuðu hurðinni inn í þingsalinn. Calderon fór þá inn bakdyramegin ásamt fráfarandi forseta og var vígður á fáeinum mínútum og hljóp síðan aftur út.
Forseti Níkvaragúa var á staðnum og hafði hann ekki áhyggjur af ástandinu: "Ástandið í þinghúsinu er ekkert til þess að hafa áhyggjur af. Svona lagað gerist um allan heim." sagði hann.
Lopez Obrador, andstæðingur Calderon og jafnframt sá sem beið lægri hlut í forsetakosningunum í sumar, hefur þegar skipað sjálfan sig forseta og tilnefnt ríkisstjórn. Hann ætlar sér að marsera ásamt stuðningsmönnum sínum á aðaltorg Mexíkóborgar þegar Calderon mun flytja sína fyrstu ræðu sem forseti Mexíkó og hafa þúsundir óeirðalögreglumanna verið kallaðir út af ótta við að óeirðir brjótist út.