Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, er hættur stjórnarmyndunarviðræðum við Hamas og mun kalla saman æðstaráð Frelsissamtaka Palestínu, PLO, til þess að ákveða framhaldið. Saeb Erekat, þingmaður á palestinska þinginu, skýrði frá þessu í dag.
Abbas hefur undanfarna mánuði verið að reyna að mynda þjóðstjórn með Hamas-samtökunum til þess að binda enda á refsiaðgerðir Vesturlanda. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hættu öllum efnahagsstuðningi við heimastjórn Palestínumanna eftir að Hamas náði þar meirihluta á þingi.
Ísraelar hættu jafnframt að skila til Palestínumanna sköttum sem þeir innheimta fyrir þá. Heimastjórnin er því á hvínandi kúpunni og hefur ekki getað borgað laun í marga mánuði. Samtök arabaríkja hafa að vísu heitið stuðningi en það hefur verið lítið um efndir.