Benedikt sextándi páfi sagði í dag að það væri hneyksli að fólk í heiminu sylti og kallaði eftir róttækum breytingum á efnahagskerfi heimsins til þess að binda enda á hungursneyð hundraða milljóna manna.
Þessi orð lét páfi falla í ræðu sem hann flutti úr íbúð sinni frammi fyrir pílagrímum sem safnast höfðu saman á Sankti Péturstorgi í Vatíkaninu í dag. Benti hann á að Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna hefði greint frá því nýlega að ríflega 800 milljónir manna í heiminum væru vannærðar. Þá hefur stofnunin einnig bent á að á þeim tíu árum sem liðin eru síðan leiðtogar heimsins sammæltust um að fækka hungruðum um helming í heiminum hefur nánast enginn árangur náðst.
Páfi kallaði eftir sanngjarnari skiptingu matvæla í heiminum en eins og staðan væri nú rynni stærstur hluti af auðlindum jarðar til minnihluta íbúa heimsins. Umbylta þyrfti efnahagskerfi heimsins, bæði vegna hungursneyðarinnar og ekki síður umhverfisins.