Vatíkanið hefur fordæmt Gleðigöngu samkynhneigðra sem halda á í Jerúsalem í Ísrael á föstudaginn kemur. Vatíkanið telur gönguna særandi í garð trúaðra og hvetur yfirvöld í Ísrael til að koma í veg fyrir gönguna.
Í bréfi sem Vatíkanið hefur sent utanríkisráðuneyti Ísraels hvetur Vatíkanið stjórnvöld í Ísrael til að draga leyfið fyrir göngunni til baka. Talið er að um átta þúsund manns komi til með að taka þátt í göngunni. Vatíkanið segir gönguna særandi í garð gyðinga, kristinna manna og múslima, sérstaklega þar sem gangan fer fram í helgu borginni Jerúsalem.
Samkynhneigðir hafa haldið Gleðihátíð í borginni frá árinu 2001. Í ár er hátíðin alþjóðleg og mun stærri en áður. Mótmælin hafa því verið háværari en fyrri ár.