Tekjur breska flugfélagsins British Airways á öðrum ársfjórðungi þessa árs eru 27% minni en á sama tíma í fyrra. Tekjur félagsins fyrir skatta á fjórðungnum eru 176 milljónir punda, jafnvirði tæplega 23 milljarða íslenskra króna.
Talsmenn flugfélagsins segja aðallega um að kenna kostnaði vegna hertra öryggisráðstafana í tengslum við handtökur grunaðra hryðjuverkamanna í Lundúnum í sumar. Þær hafi kostað félagið 100 milljónir punda, jafnvirði tæplega 13 milljarða íslenskra króna. Einnig hafi hærra eldsneytisverð sitt að segja.
Fram kemur á fréttavef BBC að ef horft sé á fyrstu sex mánuði ársins hafi tekjur félagsins á þeim tíma hækkað um 1,6% miðað við sama tíma í fyrra.