Einn er nú sagður látinn og 110 slasaðir, þar af fimm mjög alvarlega, eftir árekstur tveggja neðanjarðarlesta í jarðlestakerfi Rómar í morgun. Áreksturinn varð við lestarstöð í miðborg Rómar og var torg fyrir ofan stöðina girt af í kjölfar þess.
Slysið varð með þeim hætti að önnur lestin kom á fleygiferð inn á lestarstöðina og lenti aftan á hinni sem stóð kyrr. Haft er eftir farþegum að önnur lestanna hafi ekki virt stöðvunarskyldu á rauðu ljósi.
Mikil ringulreið var á vettvangi þegar slasaðir farþegar streymdu upp úr lestarstöðinni en gert var að sárum þeirra í nágrenninu. Lestarsamgöngur á línunni sem lestarnar gengu hafa verið stöðvaðar á meðan rannsókn á slysinu fer fram.