Ákveðið hefur verið að halda fjáröflunarráðstefnu fyrir Líbanon í París í upphafi næsta árs til þess að hjálpa landinu að komast á réttan kjöl eftir stríð Ísraels og Hizbollah-samtakanna í sumar. Frá þessu greindi Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons í dag, eftir ríkisstjórnarfund. Suðurhluti Líbanons er rústir einar eftir gengdarlausar loftárásir Ísraela í júlí og ágúst og telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að tjónið nemi um 230 milljörðum króna. Þar fyrir utan glíma líbönsk stjórnvöld við gríðarlegar skuldir sem safnast höfðu upp fyrir átökin.

