Viðskipti erlent

Norðmenn vilja SAS

Ein af vélum norræna flugfélagsins SAS.
Ein af vélum norræna flugfélagsins SAS. Mynd/AP

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir í samtali við norska dagblaðið Dagsavisen koma til greina að norska ríkið kaupi hluti sænska og danska ríkisins í norræna flugfélaginu SAS. Stoltenberg segir ríkisstjórnir landanna hafa hug á að selja hluti sína í félaginu.

Leiðtogi Hægriflokksins í Svíþjóð sagði fyrir kosningar að hann myndi beita sér fyrir því að ríkið seldi hluti sína í ýmsum fyrirtækjum færi hann með sigur af hólmi. Þá sögðu dönsku stjórnarflokkarnir að þeir myndu sömuleiðis selja hlut ríkisins tækju Svíar þá ákvörðun að selja sína hluti.

SAS Group, móðurfélag flugfélagsins SAS, er skráð í samnorrænu OMX-kauphöllina. Svíar, Danir og Norðmenn skipta helmingi hlutafjár í félaginu á milli sín. Sænska ríkið á 21,4 prósenta hlut í því en danska ríkið á 14,3 prósent líkt og norska ríkið en almennir hluthafar eiga afganginn.

Markaðsvirði eignarhluta danska og sænska ríkisins nemur 8,1 milljarði norskra króna eða jafnvirði rúmlega 87 milljarða íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×