Erlent

Bin Laden sagður hafa látist úr taugaveiki

Yfirvöld í Pakistan segjast ekki hafa fengið fréttir af því að Osama bin Laden, leiðtogi al Kaída hryðjuverkasamtakanna, hafi látist úr taugaveiki þar í landi. Franskt dagblað fullyrðir það í dag og vitnar þar til leyniskýrslu sem var lekið í blaðamann.

Franska dagblaðið L´Est Republicain greinir frá því í dag að bin Laden hafi sýkst af taugaveiki og látist síðla í ágúst. Vitnað er til skýrslu frönsku leyniþjónustunnar sem var lekið í blaðamann. Þar segir að yfirvöld í Sádí Arabíu, heimalandi bin Ladens, séu sannfærð um að þetta hafi gerst og hann sé allur. Talsmaður franskra yfirvalda segist ekki geta staðfest þetta og bætti því við að rannskað yrði hver hefði lekið upplýsingum frá leyniþjónustunni. Háttsettir sendifulltrúar Pakistana draga frétt blaðsins í efa og segja yfirvöld í Íslamabad að engar upplýsingar um dauða bin Ladens hafi borist þeim og leyniþjónustur annarra ríkja ekki látið slíkt uppi eins og væri venjan í málum sem þessum.

Bin Laden mun hafa flúið til Pakistan frá Afganistan þegar alþjóðlegt herlið, undir stjórn Bandaríkjamanna, hrakti Talíbana frá völdum þar árið 2001. Hann var eltur þangað en hefur tekist að fara huldu höfði. Engar traustar vísbendingar munu hafa borist um hugsanlega dvalarstaði bin Ladens í tvö ár en hann er talinn hafa haldið til í fjallarhéruðum við landamæri Afganistans og Pakistans. Síðasta myndbandsupptaka af bin Laden var birt síðla árs 2004. Fjölmargar hljóðupptökur hafa þó verið sendar út fyrr á þessu ári en gæði þeirra þótt það slæm að ekki hefur verið hægt að staðfesta svo óyggjandi sé að um rödd bin Ladens hafi verið að ræða og hversu nýlegar upptökurnar séu.

Háttsettur talsmaður Talíbana slær einnig á fréttir franska blaðsins í morgun, segir ekkert benda til þess að bin Laden sé látinn og uppljóstranir þess efnis séu áróður gegn heilögum stríðsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×