Erlent

Pólverjar leita að betra lífi í Vestur-Evrópu

Mörg hundruð þúsund Pólverjar hafa yfirgefið landið undanfarin misseri í leit að betra lífi í Vestur-Evrópu, meðal annars hérlendis. Brottflutningurinn hefur slegið á atvinnuleysi en einnig raskað samfélagsgerðinni í landinu. Dæmi eru um að mæður hafi skilið börn sín eftir á munaðarleysingjahælum og haldið svo á brott.

Rúm tvö ár eru liðin frá því að Pólland, ásamt níu öðrum ríkjum Austur- og Suður-Evrópu, gekk inn í Evrópusambandið og er óhætt að segja að því hafi fylgt stórfelldar breytingar. Talið er að í það minnsta 600.000 Pólverjar hafi ákveðið að freista gæfunnar í gömlu Evrópu á síðustu tveimur árum þar sem laun eru mun hærri en í heimalandinu, sumir telja raunar að sá fjöldi geti numið allt að tveimur milljónum.

Hlutfallslega mun Pólverjum hvergi hafa fjölgað jafn ört og mikið í Vestur-Evrópu og hér á landi. Árið 2004 rann 31% allra útgefinna atvinnuleyfa hérlendis til Pólverja og á síðasta ári var þetta hlutfall komið upp í 44%. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt er atvinnuleysi um 15% í Póllandi og í því ljósi er brottflutningur fólks þaðan afar skiljanlegur. Þessi þróun hefur hins vegar neikvæðar hliðar líka. Þannig er allstór hluti brottfluttra vel menntað ungt fólk sem innan fárra ára hefði getað staðið fyrir mestu verðmætasköpuninni í landinu.

Þá hefur hjónaskilnuðum í þessu kaþólska landi fjölgað stórlega síðan landið gekk inn í ESB og einstæðum fátækum mæðrum um leið. Að sögn Reuters-fréttastofunnar eru jafnvel dæmi um að foreldrar reyni að koma börnum sínum fyrir á munaðarleysingjahælum og haldi þangað sem grasið er grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×