Erlent

Nýr forsætisráðherra verði skipaður innan tveggja vikna

Leiðtogar herforingjanna í Taílandi segja að nýr forsætisráðherra verði skipaður innan tveggja vikna. Þeir segja aftur á móti að í það minnsta ár muni líða þar til kosningar verði haldnar í landinu.

Allt var með kyrrum kjörum í Bangkok í morgun, tæpum sólarhring eftir að hópur herforingja undir stjórn Shontin Bunjaratglin, steypti hinum umdeilda forsætisráðherra Thaksins Shinawatra af stóli. Nokkrir skriðdrekar umkringdu stjórnarráðsbygginginuna en enn hefur engu skoti verið hleypt af í þessari fyrstu herforingjabyltingu í landinu í fimmtán ár.

Í morgun boðaði Shontin til blaðamannafundar þar sem hann sagði að herforingjarnir yrðu við völd í landinu í mesta lagi í tvær vikur, eftir það tæki nýr forsætisráðherra við völdum. Hann kæmi úr röðum óbreyttra borgara en yrði að vera "elskur að lýðræði" eins og hann orðaði það.

Verkefni bráðabirgðastjórnarinnar yrði að búa til nýja stjórnarskrá og á grundvelli hennar yrði boðað til nýrra kosninga í landinu eftir ár hið minnsta. Shonti sagði að Thaksin væri velkomið að snúa aftur til Taílands en hann er sagður á leið frá New York til Lundúna.

Ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Ástralíu, svo og Evrópusambandið, hafa fordæmt valdaránið. Stjórnmálaskýrendur segja hins vegar að það geti orðið til eyða þeirri sundrungu sem öðru fremur hefur einkennt taílenskt stjórnmálalíf undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×