Erlent

Múslimar æfir út í páfa

Æfir múslimar í Jammu á Indlandi hrópa slagorð gegn páfa í dag.
Æfir múslimar í Jammu á Indlandi hrópa slagorð gegn páfa í dag. MYND/AP

Múslimar um allan heim eru æfareiðir Benedikti páfa sextánda fyrir ummæli sem hann lét falla í ræðu í Þýskalandi fyrr í vikunni. Þar ræddi páfi hugtakið "heilagt stríð".

Í ávarpi sínu í Háskólanum í Regensburg vitnaði páfi til kristins keisara austrómverska ríkisins á fjórtándu öld sem sagði Múhameð spámann aðeins hafa fært heiminum illa og ómannúðlega hluti. Pakistanska þingið hefur þegar ályktað gegn ummælum páfa, segir þau niðrandi og til þess fallin að móðga múslima um allan heim. Talsmaður Vatíkansins segir það ekki hafa verið ætlun páfa að móðga nokkurn heldur sé það vilji hans að auka skilning og viðræður milli fulltrúa mismunandi trúfélaga og trúarbragða.

Hann hafi lagt áherslu á það að þetta væru ekki hans orð heldur væri hann að vitna til þess sem sagt hefði verið fyrir mörgum öldum. Múslimar krefjast þess að páfi biðjist afsökunar á ummælum sínum. Páfi er væntanlegur til Tyrklands í nóvember og verður það hans fyrsta heimsókn til íslamsks lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×