Viðskipti erlent

Olíuverð undir 65 dölum

Bensínstöð í Kína
Bensínstöð í Kína Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu fór niður fyrir 65 bandaríkjadali á tunnu á markaði í Lundúnum í Bretlandi í dag í kjölfar árangursríkrar niðurstöðu af viðræðum Írana og Evrópusambandsins í Vín í Austurríki í gær sem koma eiga í veg fyrir refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna gegn Írönum.

Þá munu auknar olíubirgðir í Bandaríkjunum eiga hlut að máli, spá um mildara fellibyljatímabil við Bandaríkin en búist var við og líkur á að OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, haldi olíuframleiðslu sinni óbreyttri.

Í morgun lækkaði verð á Norðursjávarolíu um 37 sent í Kauphöll Lundúna og fór olíutunnan í 64,96 dali en verðið hefur ekki verið lægra síðan í lok mars á þessu ári.

Verð á hráolíu lækkaði hins vegar um 47 sent á markaði í New York í Bandaríkjunum og fór í 65,78 dali á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×