Viðskipti erlent

Þýsk risaútgáfa seld til Frakklands

Meðlimir bresku hljómsveitarinnar Coldplay Coldplay á verðlaunahátíð MTV Europe árið 2002.
Meðlimir bresku hljómsveitarinnar Coldplay Coldplay á verðlaunahátíð MTV Europe árið 2002. Mynd/AP

Þýska fjölmiðlasamsteypan Bertelsmann hefur samþykkt að selja tónlistarútgáfuarm fyrirtækisins, BMG Music Publishing Group, til útgáfufyrirtækisins Universal Music, dótturfélags frönsku fjölmiðlasamstæðunnar Vivendi. Universal Music greiðir 1,63 milljarða evrur, jafnvirði 144,7 milljarða króna, fyrir útgáfufyrirtækið.

BMG Music Publishing Group, sem er þriðja stærsta útgáfufyrirtæki í heimi, á meðal annars útgáfurétt á lögum Coldplay, Robbie Williams og Justin Timberlake, Barry Manilow, Marihu Carey og The Beach Boys.

Jean-Bernard Levy, forstjóri Vivendi, segir kaupin kærkomið tækifæri til að auka við tónlistarútgáfu fyrirtækisins.

Að sögn forsvarsmanna Bertelsmann mun salan hjálpa til við að grynnka á 4,5 milljarða evru eða tæplega 400 milljarða króna láni sem félagið tók til að kaupa fjórðung eigin bréfa fyrir nokkru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×