Viðskipti erlent

Neysla jókst í Bandaríkjunum

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Mynd/AFP

Neysla jókst um 0,8 prósent í júlí og hefur aukningin ekki verið jafn mikil á árinu. Greiningaraðilar segja vöxt neyslunnar bera merki um hægari lendingu á efnahagslífinu en óttast hafði verið. Verðbólga er hins vegar vandamál, að mati viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna.

Ef verð á matvælum og raforku er skilið frá útreikningum ráðuneytisins mældist 2,4 prósenta verðbólga í landinu í júlí en það er mesta verðbólga sem mælst hefur í Bandaríkjunum síðastliðin fjögur ár.

Niðurstöðurnar setja aukinn þrýsting á bandaríska seðlabankann sem ákvað fyrr í þessum mánuði að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25 prósentum. Vextir bankans hafa hækkað síðastliðin tvö ár og bjuggust margir við því að hækkanaferlið væri á enda. Óvíst er til hvaða ráða bankastjórnin grípur nú til að hamla því að verðbólga fari úr böndunum, að mati greiningaraðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×