Erlent

Börn nota sprengjur sem leikföng

Ótal virkar sprengjur af ýmsum gerðum er að finna á götum Suður-Líbanon og hafa þær limlest marga íbúa þar eða orðið þeim að fjörtjóni. Björgunarfólk hefur reynt að merkja sem flestar sprengjur kirfilega áður en sprengjusérfræðingar gera þær óvirkar.

Íbúar í Suður-Líbanon streyma enn til síns heima í von um að þar sé eitthvað heillegt að finna. Margir koma þó aðeins að rústum einum. Í þorpinu Saddiqine, um tuttugu kílómetra suðaustur af Týrus, má sjá íbúa leita eigna sinna í rúsum húsa sinna. Þeir sem finna eitthvað heillegt eiga oft fullt í fangi með að losa brak ofan af því. Á meðan reyna aðrir að hreinsa til á götum þorpsins.

Hjálparsamtök í Suður-Líbanon láta fólk fá dreifimiða þar sem varað er við því að handleika klasasprengjur eða sprengjur annarrar gerðar. Margar þeirra séu enn virkar. Sjálfboðaliðar merkja sprengjur í bænum al-Bayyadah, átján kílómetrum suður af Týrus. Þá getur fólk forðast þær þar til sprengjusérfræðingar koma á vettvang og skera úr um hvort réttast sé að fjarlægja þær eða sprengja á staðnum.

Elias Kayal, sérfærðingur hjá hjálparsamtökum í Suður-Líbanon, segir sprengjur á borð við klasasprengjur, helstu ógn við lífi og limum þorpsbúa. Hann segir um það bil tuttugu og fjögur slys hafa orðið í síðustu viku. Börn hafi látist. Fólk hafi reynt að henda sprengjum úr görðum sínum og húsum með hörmulegum afleiðingum. Mörg slys hafi orðið og eigi eftir að verða.

Börn sem finna virkar sprengju taka þær oft fyrir leikföng með hörmulegum afleiðingum. Hassan Tehini, sem er tíu ára, og Seknah Merhi, sem er tólf ára, særðust þegar klasasprengja sprakk um leið og önnur stúlka var að leika sér með hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×