Erlent

Yfirvofandi hryðjuverkaárás í Bretlandi

Mynd/AP
Hættuástandi hefur verið lýst yfir í Bretlandi vegna njósna um að hryðjuverkaárás sé yfirvofandi þar í landi. Öryggisgæsla á breskum flugvöllum hefur verið hert til muna þar sem óttast er að hryðjuverkamenn ætli að sprengja flugvélar á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna í loft upp.

Breska lögreglan upplýsti í morgun að tekist hefði að koma í veg fyrir ráðabrugg hryðjuverkamanna um að sprengja í loft upp nokkrar flugvélar á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Nota átti sprengjur sem koma átti fyrir í handfarangri sem tekinn yrði um borð í vélarnar. Breska lögreglan telur að nota hafi átt sprengiefni í fljótandi formi. Fram kemur á fréttavef BBC að breska lögreglan hafi handtekið átján menn vegna málsins en rannsókn mun hafa staðið yfir í nokkra mánuði.

Bandarísk og bresk yfirvöld hafa fært viðbúnað sinn á hæsta stig og bannað handfarangur um borð í vélar sem fara frá löndunum. Bandarísk yfirvöld hafa einnig bannað farþegum að taka með sér drykkjarföng, hársprey og annað þvíumlíkt um borð í vélar. Allur handfarangur er nú bannaður um borð í vélar sem fara frá Bretlandi.

Öryggisgæsla á breskum flugvöllum hefur verið hert til muna og má búast við töfum á flugi í dag og næstu daga. Stjórnendur á flugvellinum í Brussel í Belgíu hafa aflýst öllu flugi til Bretlands vegna málsins.

Öryggismálasérfræðingur BBC segir líklegast að bresk og bandarísk yfirvöld hafi aukið viðbúnað ef hryðjuverkamenn hefðu skipulagt varaáætlun ef upp kæmist um ráðabrugg þeirra nú.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×