Erlent

Lausn í sjónmáli

MYND/AP

Fulltrúar ríkja sem eiga sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sitja nú á rökstólum og ræða orðalag ályktunar um vopnahlé í átökum Ísraela og Hizbollah-skæruliða. Sendiherra Þjóðverja segir samkomulag í sjónmáli.

Að minnsta kosti 49 almennir borgarar féllu í árásum Ísraelshers á Líbanon í gær. Sprengjum hefur rignt yfir suðurhluta Beirút í nótt og í morgun. Auk þess hafa hermenn barist við Hizbollah skæruliða víða á jörðu niðri á sama tíma. Hermenn bíða nú við landamæri Ísraels að Suður-Líbanon eftir fyrirmælum um halda þar inn gráir fyrir járnum og styðja við það lið sem þegar berst í bæjum á svæðinu. Til harðar átaka mun hafa komið í nótt.

Sendifulltrúar hjá Sameinuðu þjóðunum sitja nú á rökstólum og ræða orðalag ályktunar sem mun miða að því að binda enda á átök Ísraela og Hizbollah-liða. Líbönsk stjórnvöld hafa krafist þess að ályktunin feli í sér kröfu um tafarlaust vopnahlé. Fulltrúar frá Arababandalaginu eru væntanlegir til New York í dag til að leggja áherslu á þá kröfu. Líbanar hafa heitið því að senda fimmtán þúsund hermenn að landamærunum um leið og Ísraelar kalli sitt lið heim.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í morgun að svo virtist sem þau ríki sem eiga sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefðu komist að samkomulagi um orðalagði en ekki er vitað hvað felst í því. Búist er við að greidd verði atkvæði um ályktunina síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×