Erlent

Reynt að miðla málum á Srí Lanka

MYND/AP

Mörg þúsund manns hafa flúið átakasvæði í norðaustur-hluta Srí Lanka á síðustu dögum. Átök uppreisnarmanna Tamíltígra og stjórnarhersins, sem blossuðu þar upp vegna deilna um vatnsból, hafa breiðst út og segja sérfræðingar að landið rambi á barmi borgarastyrjaldar þótt vopnahlé eigi enn að vera í gildi.

Rauði krossinn hefur ekki getað komið hjálpargögnum til nauðstaddra þar síðustu daga og rúmlega tuttugu þúsund manns hafa hrakist frá heimilum sínum. Norræn eftirlitssveit annast friðargæslu í landinu en Danir, Finnar og Svíar hafa ákveðið að kalla liðsmenn sína heim fyrir næstu mánaðamót vegna deilna við Tamíltígra og verða því aðeins Norðmenn og Íslendingar eftir.

Jon Hanssen-Bauer, sendifulltrúi Norðmanna, kom til Srí Lanka í dag og mun reyna að miðla málum milli deiluaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×