Erlent

Ekkert vopnahlé í Líbanon í bráð

Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir að ekkert verði af vopnahléi í Líbanon í bráð. Forseti Egyptalands segir hættu á að friðarferlið í Mið-Austurlöndum öllum verði að engu ef árásum á Suður-Líbanon verði ekki hætt.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði nú síðdegis að ekkert yrði af vopnahlé í Líbanon á næstu dögum. Stríðinu í Líbanon yrði ekki hætt fyrr en Hizbollah-skæruliðar gætu ekki lengur skotið flugskeytum á ísraelskt landsvæði. Olmert sagðist finna til með Líbönum sem þjáðust. Hann bætti því við að Hizbollah-samtökin hefðu orðið fyrir miklu áfalli sem þeim ætti eftir að reynast erfitt að jafna sig á. Ísraelsk hermálayfirvöld segja að þegar hafi tekist að eyða tveimur þriðju af langdrægum flugskeytum Hizbollah sem Íranar eru sagðir hafa útvegað þeim.

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sagði í dag hætt við því að friður yrði úti í öllum Mið-Austurlöndum ef ekki tekst að stilla til friðar hið fyrsta í Líbanon. Afleiðingar þess gætu orðið grafalvarlegar. Egyptar voru fyrstir Araba til að undirrita friðarsamkomulag við Ísraela.

Eins og heyra má hefur ekki orðið lát á hernaðaraðgerðum Ísraela í Líbanon í dag. Tilkynnt var í gær að hlé yrði gert á loftárásum á landið í tvo sólahringa til þess að gefa saklausum borgurum færi á að flýja frá Suður-Líbanon yfir til norðurhlutans og til að ferja megi hjálpargögn til þeirra svæða þar sem þeirra er mest þörf.

Það var svo ekki langt liðið að degi þegar loftárásir hófust á ný, að sögn hermálayfirvald til að styðja við hermenn á jörðu niðri. Hermálayfirvöld hafa í dag tekið skýrt fram að Ísraelar hafi aldrei sagst ætla að gera hlé á árásum eða bardögum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×