Erlent

Ísraelar halda áfram árásum í Líbanon

Mynd/AP

Varnarmálaráðherra Ísraels tilkynnti í morgun að landhernaður Ísraela yrði aukinn í Líbanon á næstu dögum. Þar með renna út í sandinn vonir um að tveggja sólarhringa hlé á loftárásum gæti leitt til friðar.

Nánari útfærsla á auknum landhernaði verður rædd meðal ráðherra Ísraels seinna í dag, en þúsundir hermanna úr varaliði ísraelska hersins hafa verið kallaðir til æfinga og herþjónustu. Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði að nú yrði sótt gegn skæruliðum Hisbollah af auknu afli og á stærra svæði.

Tveggja sólarhringa hlé á loftárásum sem tilkynnt var um í gærkvöldi vakti vonir hjá mörgum um að það gæti leitt til friðar milli Ísraela og Hisbollah-skæruliða en þær vonir þykja nú æði veikar. Heryfirvöld hafa tekið skýrt fram að Ísraelar hafi aldrei sagst ætla að gera hlé á árásum eða bardögum á landi, vopnahléið tæki eingöngu til loftárása. Þetta er staðfest af þungum sprengjudyn í Khiam-dalnum í Líbanon, þar sem stórskotaliðsárás Ísraela heldur áfram tuttugasta daginn í röð.

Ísraelsher sagði hlé á loftárásum gert til þess að gefa saklausum borgurum færi á að flýja frá Suður-Líbanon yfir til norðurhlutans og svo að ferja megi hjálpargögn til þeirra svæða þar sem þeirra er mest þörf. Hins vegar þurfti matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna að aflýsa ferð bílalestar með hjálpargögn til Suður-Líbanons, eftir að Ísraelsher neitaði að tryggja öryggi þeirra og hlífa þeim við árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×