Erlent

Ísraelar fallast á tímabundið vopnahlé

Mynd/AP

Ísraelar hafa fallist á að gera tveggja sólarhringa hlé á loftárásum sínum í Suður-Líbanon. Þetta er gert til að hægt sé að rannsaka hvers vegna gerð var loftárás á þorpið Kana í fyrrinótt.

Hlé á árásum var tilkynnt eftir fund Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með stjórnvöldum í Ísrael og tók það gildi klukkan 11 í gærkvöldi að íslenskum tíma. Talið er að ákvörðun Ísraelsmanna sé aðallega til komin vegna mikils þrýstings frá Bandaríkjastjórn. Rice er einnig bjartsýn á að hægt verði að semja um varanlegt vopnahlé í þessari viku en sagði þó í morgun að þrýst yrði á um að Sameinuðu þjóðirnar krefðust tafarlauss vopnahlés. Þá ætti það að vera auðsótt mál þar sem hingað til hafa það helst verið Bandaríkjamenn sem hafa verið mótfallnir því að Sameinuðu þjóðirnar fari fram á vopnahlé.

Árásin á Kana hefur vakið mikla reiði í alþjóðasamfélaginu, enda sú stærsta síðan árásir Ísraelsmanna hófust. 56 manns fórust í árásinni, þar af yfir 30 börn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman á neyðarfundi í gær og sagði árásina á Kana valda mikilli hneykslan og sorg vegna dauða almennra borgara. Athygli vekur að öryggisráðið hvorki fordæmir árásina né fer fram á tafarlaust vopnahlé af hálfu beggja aðila, eins og Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hafði krafist. Þess í stað ítrekaði ráðið mikilvægi þess að samið yrði um vopnahlé sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×