Erlent

Barist á tveimur vígstöðvum

Ísraelar börðust á tveimur vígstöðvum í nótt, á svæðum Palestínumanna í Gaza og í Líbanon. Rétt fyrir dögun í morgun gerðu þeir tvær loftárásir á Gaza nálægt landamærunum við Egyptaland.

Rústir einar voru afleiðingar loftárásar Ísraelshers nálægt landamærum Gaza og Egyptalands, þar sem Ísraelar segja að Palestínumenn hafi grafið jarðgöng undir landamæragirðinguna yfir til Egyptalands. Slík göng hafa Palestínumenn notað til að smygla ýmsum varningi, þar á meðal vopnum. Í Gaza borg, ekki langt frá, gerðu Ísraelar loftárás á byggingar sem þeir segja að hafi verið notaðar sem vopnageymslur. Átökin í Gaza hófust fyrir mánuði og halda áfram, þó að stríðið í Líbanon hafi skyggt á þau í fjölmiðlum undanfarna daga. Ísraelski hermaðurinn, sem Palestínskir byssumenn rændu, er enn ekki kominn í leitirnar. Hjálpargögn berast nú í æ meiri mæli til Líbanons. Í morgun kom bandarískt herskip í höfnina í Beirút fullhlaðið ýmsum gögnum, svo sem teppum og segldúkum, sem bandarísk hjálparstofnun ætlar að dreifa. Rauði krossinn og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna komu matvælum inn í landið í gær og eru að fara að dreifa þeim. Á næstunni ætlar Condolezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna að fara til Mið-Austurlanda, með tillögur í farteskinu um að alþjóðlegt herlið komi á friði í landinu. Bretar og Bandaríkjamenn vilja að herliðið starfi samkvæmt sjöunda kafla stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, sem leyfir valdbeitingu til að koma á friði og öryggi - og krefst ekki að allir aðilar málsins nái samkomulagi fyrst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×