Erlent

Enginn árangur af ráðstefnunni

Bandaríkjamenn og Bretar komu í veg fyrir að tafarlauss vopnahlés yrði krafist á alþjóðlegri ráðstefnu um stríðið í Líbanon sem fram fór í Róm í dag. Líbanski forsætisráðherrann spurði á ráðstefnunni hvort tár Ísraela væru meira virði en blóð Líbana.

Þótt utanríkisráðherrar nokkurra voldugustu ríkja heims og starfsbræður þeirra frá Mið-Austurlöndum hafi verið glaðbeittir þegar þeir mættu til fundarins í Róm í morgun er tæpast hægt að segja að miklar væntingar hafi verið gerðar til hans. Aðeins tókst að komast að niðurstöðu um hið augljósa, að leita allra leiða til að binda enda á átökin sem allra fyrst, en hvergi var kveðið á um útfærslur að því erfiða marki. Þær Condoleezza Rice og Margaret Beckett, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Bretlands, vildu ekki samþykkja leiðir til að knýja deilendur til tafarlauss vopnahlés þar sem fyrst yrði að uppræta rót ofbeldisins, eins og það var orðað. Spennan á milli fundarmanna leyndi sér ekki á blaðamannafundi að viðræðunum loknum.Fouad Siniora forsætisráðherra Líbanons, var þar ómyrkur í máli.

Áður hafði hann varpað þeirri spurningu upp hvort Líbanar nytu síðri mannréttinda en aðrir jarðarbúar og hvort tár Ísraela væru meira virði en blóð landa sinna. Loks hét hann því að krefja Ísraela skaðabóta fyrir tjónið sem þeir hafa valdið í Líbanon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×