Erlent

Ísraelar grunaðir um græsku

Forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna saka Ísraela um að hafa af yfirlögðu ráði varpað sprengjum á búðir friðargæsluliða í Líbanon með þeim afleiðingum að fjórir þeirra létust. Átökin í Líbanon eru ekki í rénun og Ísraelar hertu enn sókn sína á Gaza í dag.

Friðargæsluliðarnir fjórir sem féllu í árásinni voru frá Kína, Kanada, Austurríki og Finnlandi. Svo virðist sem Ísraelsher hafi látið sprengjum rigna á bækistöð þeirra við bæinn Khima sem er rétt fyrir innan líbönsku landamærin og ein þeirra verið svo öflug að hún nánast flatti stöðina út. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var að vonum æfur þegar hann frétti af árásinni og krafðist þess að tafarlaus rannsókn færi fram. Í dag skýrði Dermot Ahern, utanríkisráðherra Írlands, frá því að Ísraelum hefði margsinnis verið bent á hættuna sem þeir settu friðargæsluliðana í með árásum sínum en þær viðvaranir hefðu verið hafðar að engu. Enda þótt ísraelsk stjórnvöld hafi beðist afsökunar gat hann ekki varist að draga sínar ályktanir, annað hvort væri um ótrúlegt slys að ræða eða beina árás.

Það sem friðargæsluliðarnir máttu ganga í gegnum í gær er í raun það sama og þúsundir líbanskra borgara hafa þurft að búa við dag eftir dag undanfarinn hálfan mánuð. Ekkert lát er á árásum Ísraela á Líbanon og í gærkvöld hét Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah, að þeim yrði svarað áfram af fullum krafti. Á fimmta hundrað manns hafa látist af völdum átakanna og allt að 750.000 flúið heimili sín. Og Ísraelsher fer ekki einungis mikinn í Líbanon þessa dagana. 16 Palestínumenn létu lífið eftir stórhertar hernaðaraðgerðir á Gazaströndinni í dag, þar á meðal þriggja ára stúlka og fatlaður maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×