Erlent

Yfir 160 sagðir látnir

Aðstæður í Mumbai voru afar erfiðar.
Aðstæður í Mumbai voru afar erfiðar. MYND/AP

Nú er talið öruggt að hryðjuverkamenn hafi valdið sprengingunum í járnbrautarlestum Múmbei-borgar í dag. Í það minnsta 174 eru sagðir látnir og tæplega fimm hundruð slasaðir í þessum verstu hermdarverkum borgarinnar í meira en áratug. Enn sem komið er hefur enginn lýst yfir ábyrgð á þeim.

Sprengjurnar sjö sprungu með stuttu millibili í fimm lestum og á tveimur lestarstöðvum á háannatíma þegar borgarbúar voru á leið til síns heima úr vinnu og því er manntjónið jafn mikið og raun ber vitni. Mikið öngþveiti myndaðist á vettvangi ódæðanna og áttu þeir sem slösuðust fullt í fangi að fá læknishjálp. Símasamband í borginni lagðist af um tíma og sömuleiðis voru allar lestarsamgöngur þar stöðvaðar. Í Múmbei, sem áður kallaðist Bombay, eru Íslendingar á vegum Eskimó-módelskrifstofunnar en þeir eru allir heilir á húfi.

Að vonum eru borgarbúar afar óttaslegnir enda eru aðeins þrettán ár síðan 250 manns týndu lífi í röð sprenginga í Múmbei.

Enda þótt enginn hafi lýst yfir ábyrgð á tilræðinu er talið líklegast að íslamskir öfgamenn sem krefjast aðskilnaðar Kasmír-héraðs frá Indlandi séu sökudólgarnir. Það skiptist á milli Indlands og Pakistans og hefur verið deilt um það nánast látlaust síðastliðna sex áratugi. Boðað var til neyðarfundar í indversku ríkisstjórninni í dag dag þar sem ákveðið var að auka mjög öryggisviðbúnað í Múmbei og höfuðborginni Nýju Delí. Pervez Musharraff forseti Pakistans fordæmdi árásirnar í dag og nú undir kvöld barst svipuð yfirlýsing frá bandaríska utanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×